Loka

Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM

Svifaldan verðlaunagripurinn fyrir Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2019 var nú veitt í níunda sinn, en markmið verðlaunanna er að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða, stuðla að nýbreytni og vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Svifaldan er gefin af TM, en jafnframt voru veittar viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu verkefnunum að mati dómnefndar. 

Sex manna dómnefnd skipuð aðilum úr sjávarútvegsfyrirtækjum, rannsóknastofnunum, tæknifyrirtækjum og þjónustuaðilum við sjávarútveginn lagði mat á tillögur til Hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2019.

Niceland Seafood hlaut Svifölduna, Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2019 fyrir nýstárlegar leiðir í sölu og markaðssetningu á íslenskum fiski. Niceland Seafood er fyrsta fyrirtækið sem býður upp á ferskan, íslenskan fisk með rekjanleikalausn sem sýnir neytandanum hvernig fiskurinn ferðast frá veiðum í verslanir/veitingarhús. Niceland Seafood leggur áherslu á að draga fram á myndrænan hátt opinber gögn frá eftirlitsstofnunum, upplýsingar frá veiðum, vinnslu og flutningi á vörunni ásamt ítarefni um næringargildi, uppskriftir og annað sem neytendur vilja vita um vöruna. Fyrirtækið leggur áherslu á að fylgja vörum sínum vel eftir með öflugri markaðssetningu undir vörumerkjum Niceland Seafood. Það er gert í samstarfi við verslanir og veitingahús með kynningarefni í fiskborði eða á matseðlum og víðar. Þar að auki sérhæfir fyrirtækið sig í markaðsetningu á netinu bæði í gegnum samfélagsmiðla og aðra netmiðla. Þannig er fyrirtækið bæði að selja íslenskan fisk undir sterku vörumerki og nýta sér upplýsingar sem áður voru ótengdar og ósýnilegar neytendum með það fyrir augum að ná fram meiri verðmætum út úr þessari mikilvægu útflutningsvöru Íslendinga.

Codland hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir framtak sem mun skapa verðmæti og atvinnu og tryggja þá ímynd enn fastar í sessi sem einkennt hefur íslenskan sjávarútveg um aukna nýtingu á hráefni til verðmætasköpunar. Codland var stofnað árið 2012 þegar Íslenski sjávarklasinn í samstarfi við Vísir og Þorbjörn í Grindavík settu stefnuna á að skapa hámarksverðmæti úr öllum hlutum fisksins. Markmið Codland er að efla ímynd og hámarka fullnýtingu á þorski. Stærsta verkefni Codlands hefur verið að koma af stað fyrirtækinu Icelandic Marine Collagen, sem er í eigu fjögurra útgerða; Brims, Samherja, Vísis og Þorbjarnar, og mun vinna verðmæt og eftirsótt kollagen-peptíð og gelatín úr fiskroði.

Sjávarklasinn hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir stuðning við nýsköpun og samvinnu hinna ýmsu aðila innanlands og utan. Mikill fókus hefur verið á sjálfbærni og hafa verkefnin stuðlað að auknu samstarfi fyrirtækja, menntastofnanna og ríkisstofnanna. Starfssemi Sjávarklasans hefur stuðlað að vitundarvakningu á Íslandi á mikilvægi og fjölbreytileika á starfssemi sem tengd er sjávarútvegi. Sjávarklasinn er samfélag yfir 80 fyrirtækja og frumkvöðla í hafsækinni starfsemi. Þar eru fyrirtæki í fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og ýmsu öðru. Sjávarklasinn er samfélag þessara fyrirtækja og vettvangur fyrir þau að skapa saman ný verðmæti.

Heiða Kristín Helgadóttir, stofnandi og framkvæmdarstjóri, Niceland Seafood

Björk Viðarsdóttir, TM,  Davíð Tómas Davíðsson, Codland, Berta Daníelsdóttir, Sjávarklasinn, Heiða Kristín Helgadóttir, Niceland Seafood og Hr. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson

Björk Viðarsdóttir, TM,  Heiða Kristín Helgadóttir, Niceland Seafood, Berta Daníelsdóttir, Sjávarklasinn og Davíð Tómas Davíðsson, Codland