Ráðstefna 2024
Forsíða » Ávarp formanns
Stjórnun fiskveiða - svo miklu meira en kvóti
Ávarp formanns
Fiskveiðar við Ísland eru ríkur hluti af þjóðarsálinni og hafa verið undirstaða vaxandi lífsgæða síðustu 100 ár. Það þýðir ekkert að slíta í sundur sjálfbærni og fiskveiðar. Það þýðir ekkert að slíta í sundur fiskveiðistjórnun og fiskveiðar. Algerlega skýr tengsl en stundum ber kappið skynsemina ofurliði‚ eða öfugt. En kapp og skynsemi eru stórkostlegir félagar sem íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið kappkostar flétta saman þannig að samfélagið, efnahagslífið og náttúran þroski samband sitt til viðvarandi verðmætasköpunar.
Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið er samstarfsvettvangur allra hagaðila í sjávarútvegi. Fiskveiðistjórnunarkerfið er forsendan fyrir viðvarandi verðmætasköpun sem lífsgæði fjölskyldna og hagur fyrirtækja á Íslandi treysta á.
Þess vegna má alls ekki smætta fiskveiðistjórnunarkerfið í þrönga umræðu um kvóta. Á sjávarútvegsráðstefnunni 7. og 8. nóvember 2024 beinum við kastljósinu að kerfinu sem er samstarfsvettvangur hundruða fyrirtækja og þúsunda starfsmanna sem hafa beina eða óbeina aðkomu að verðmætasköpun í grein sem árlega veltir x milljörðum.
Fjárfesting í nýsköpun og rannsóknum fer fram hjá stöndugum fyrirtækjum og krafmiklum einstaklingum sem brenna fyrir hugmyndir sínar eru drifkraftur aukinnar nýtingar og verðmætasköpunar þar sem sífellt meiri verðmæti eru unnin úr minna hráefni.
Á bak við verðmætin er fiskveiðistjórnunarkerfið sem verður rauður þráður í gegnum málstofur ráðstefnunnar árið 2024. Á ráðstefnunni verður fiskveiðistjórnunarkerfið okkar skoðað frá ólíkum sjónarhornum til að gagnrýna, til að læra, til að þróa og gera betur.