Ráðstefna 2025

Sjávarútvegsráðstefnan er einstakur vettvangur þar sem fulltrúar greinarinnar, stjórnvalda, fræðasamfélags og fjölbreyttra samstarfsaðila mætast. Öll eigum við það sameiginlegt að hafa áhuga á framtíð íslensks sjávarútvegs.

Sú hefð hefur skapast að ráðstefna hvers árs hefur sína yfirskrift sem myndar rauðan þráð í málstofum og efnistökum ráðstefnunnar. Yfirskriftin í ár er „Róum í sömu átt! – Verðmætasköpun og samkeppnishæfni í íslenskum sjávarútvegi“.

Þessi yfirskrift endurspeglar það sem við þurfum einmitt nú: samstöðu, traust og sameiginlega sýn á hvernig við byggjum áfram undir verðmætasköpun og samkeppnishæfni greinarinnar. Sjávarútvegurinn stendur á tímamótum – rekstrarumhverfið breytist hratt og nýjar áskoranir krefjast þess að við vinnum saman, lærum hvert af öðru og horfum fram á veg með opnum huga.

Opnunarmálstofan setur tóninn fyrir ráðstefnuna með lifandi samtali um leiðina fram á við, þar sem sjónarmið stjórnvalda, atvinnulífs og virkt samspil við gesti ráðstefnunnar mætast. Þar verður fjallað um hvernig skapa má sameiginlega stefnu og framtíðarsýn sem byggir á trausti, gagnsæi og sátt milli þjóðar og atvinnugreinar. Breytt rekstrarumhverfi og alþjóðleg samkeppni kalla á að við rýnum í hvernig tryggja megi jafnvægi milli þjóðarhagsmuna og samkeppnishæfni greinarinnar.

Hvernig nýtum við þjóðarauðlindina á sjálfbæran hátt, tryggjum nýsköpun og verðmætasköpun innanlands og verjum um leið störf og lífsgæði í sjávarbyggðum?

Til að halda utan um yfirskrift ráðstefnunnar verður í lokin samantektarmálstofa, í höndum Bergs Ebba Benediktssonar og Birnu Einarsdóttur. Þau munu draga saman helstu umfjöllunarefni og lærdóma ráðstefnunnar, varpa ljósi á það sem sameinar og skilur og setja umræðuna í stærra samhengi.

Við undirbúning ráðstefnunnar í ár hefur tekist vel að halda yfirskriftinni sem þræði í gegnum málstofur. Búast má við þéttri dagskrá og líflegum erindum í þeim átta málstofum sem faghópar hafa sett saman. Von er til þess að viðfangsefnin fræði, vekji til umhugsunar, hvetji til hugmynda, ausna og samstarfs allra hagaðila íslensks sjávarútvegs svo við róum áfram, öll í sömu átt.

Elma Sif Einarsdóttir
Elma Sif Einarsdóttir
Scroll to Top