Loka

Sjávarútvegsráðstefnan er 10 ár

Stofnun félagsins

Stofnfundur
Stofnfundur Sjávarútvegsráðstefnunnar var haldinn 19. febrúar 2010 í Sjóminjasafninu í Reykjavík. Á fundinn mættu 45 manns. Að stofnun Sjávarútvegsráðstefnunnar kom breiður hópur þátttakenda eða samtals 81 aðili, þar af 15 félög.

Áhrifaþættir
Varðandi áhrifaþætti söknuðu menn funda stóru markaðsfyrirtækjanna og að nánast öll umræða um sjávarútvegsmál væri hagsmunatengd. Á þessum tíma voru ýmsar ráðstefnur og fundir innan sjávarútvegsins en þá yfirleitt tengt einstökum félögum, samtökum eða efni. Vöntun var á hlutlausum vettvangi þar sem fólki gæfist tækifæri eiga faglega umræðu um sjávarútvegsmál og mynda tengsl.

Um Sjávarútivegsráðstefnuna

Hugmyndin
Hugmyndin að Sjávarútvegsráðstefnunni er að skapa samskiptavettvang allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Innan þessa hóps eru þeir sem starfa við veiðar, eldi, frumvinnslu, framhaldsvinnslu, sölu og markaðssetningu, þjónustu og rannsóknir og þróun, einnig opinberir aðilar, kennarar og nemendur, fjölmiðlar og aðrir áhugamenn.

Sjávarútvegsráðstefnan er fyrir alla!
Markmið Sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversneið af greininni til að vinna að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og vonast er að hún verði uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

Hlutverk
Sjávarútvegsráðstefnan er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu. Hlutverk félagsins er að halda árlega sjávarútvegsráðstefnu og er tilgangur hennar að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg og vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi.

Skipulag félagsins
Aðalfundur félagsins kýs átta manna stjórn sem er jafnframt ráðstefnuráð. Stjórn félagsins skipuleggur og sér um framkvæmd Sjávarútvegsráðstefnunnar. Við val á stjórn félagsins er leitast við að hún endurspegli sem best starfsemi sjávarútvegs. Til að tryggja að sjónarmið sem flestra innan greinarinnar nái fram er gert ráð fyrir reglulegri endurnýjun með því að skipta út helmingi stjórnar á hverju ári. Nú hafa um 35 manns setið í stjórn félagsins frá og með árinu 2010.

Þátttakendur

Breiður hópur þátttakenda
Frá því að fyrsta Sjávarútvegsráðstefnan var haldin hefur þátttakendum fjölgað mikið. Á fyrstu tveimur ráðstefnunum var fjöldi skráðra þátttakenda rúmleg 300 en hefur verið 700-800 manns á síðustu árum. Það er breiður hópur ráðstefnugesta sem mætir á Sjávarútvegsráðstefnuna. Af einstökum hópum mæta flestir frá sjávarútvegsfyrirtækjum, þ.e.a.s. útgerðum og fiskvinnslum.

Byggjum á breiddinni
Við byggjum á breiddinni, en um 350 fyrirlesarar hafa haldið erindi á Sjávarútvegsráðstefnunum 2010-2018. Rúmlega 80% hafa aðeins einu sinni haldið erindi og fram hefur komið hjá ráðstefnugestum að mikið væri um flotta fyrirlesara. Fyrirlesarar á Sjávarútvegsráðstefnunni 2019 verða um 100 og flestir þeirra hafa ekki áður haldið erindi á ráðstefnunni. Hlutfall kvenna sem fyrirlesarar hefur verið að aukast á síðustu árum og jafnframt ungt fólk að verða meira áberandi.
Við reynum að hafa breiðan hóp fyrirlesara til að tryggja að sem fjölbreyttust sjónarmið nái fram.

Framtíðar viðskiptavinir
Þeir sem eru í námi, sérstaklega sjávarútvegstengdu námi, eru framtíðar viðskiptavinir Sjávarútvegsráðstefnunnar á næstu áratugum. Ákveðnum fjölda nema hefur árlega verið boðið á ráðstefnuna og í staðinn hafa sumir þeirra verið með vinnuframlag. Haldnir hafa verið sérstakir viðburðir á Sjávarútvegsráðstefnunni ætlaðir nemendum. Á árunum 2015-2018 sóttu að meðaltali 50-60 nemar ráðstefnuna.

Ráðstefnan

Fjölbreytt efnistök
Að meðtalinni Sjávarútvegsráðstefnunni 2019 hafa verið haldnar um 110 málstofur og flutt um 550 erindi. Efnistök hafa verið fjölbreytt sem endurspegla vel atvinnugreinina í heild sinni. Málstofur innan markaðsmál hafa verið mest áberandi á Sjávarútvegsráðstefnunum, enda erlendir markaðir forsenda þess að hægt hefur verið að byggja upp öflugan sjávarútveg á Íslandi.

Ráðstefnustaður
Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan var haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Í fimm ár var Sjávarútvegsráðstefnan haldin á Grand Hótel en vegna aukins fjölda ráðstefnugesta var ráðstefnan flutt yfir á Hilton Reykjavík Nordica árið 2015. Aðsóknin jókst mikið árið 2015 og stóra stökkið var tekið 2016 með að flytja ráðstefnuna í Hörpu þar sem hún hefur verið síðan.

Sjávarútvegsráðstefnan er 10 ár
Sjávarútvegsráðstefnan 2019 er tíunda ráðstefna vettvangsins og erum við stolt af því að ná þeim áfanga. Það eiga sér því stað ákveðin tímamót sem verður fagnað með umfangsmeiri ráðstefnu og betri kynningu en gert hefur verið fram að þessu. Við leggjum metnað okkar í að 10 ár Sjávarútvegsráðstefna í ár verði íslenskum sjávarútvegi til framdráttar á heimsvísu.