Loka

Málstofur á Sjávarútvegsráðstefnunni 2021

Hér að neðan eru málstofur sem var komið vel áleiðis að skipuleggja á árinu 2020. Ennþá er hægt að koma með tillögur um málstofur og fyrirlesara, t.d. með að fara inn á Hafa samband. Heiti og lýsing á öllum málstofum verður birt á vefsíðunni í maí.

Umsjón:  Stjórn Sjávarútvegs-ráðstefnunnar

Íslenskur sjávarútvegur í breyttri heimsmynd

Óhætt er að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur er sú atvinnugrein þar sem sem Íslendingar eru með alþjóðlega forustu. Íslenskur sjávarútvegur er í samkeppni við margar öflugar sjávarútvegsþjóðir og er því mikilvægt að vel sé staðið að sölu- og markaðssetningu og þar skiptir ímynd miklu máli. Mörg lönd hafa horft til Íslands varðandi fyrirmynd að uppbyggingu sjávarútvegs. Hver er staða ímyndar íslensks sjávarútvegs og hvernig stöndum við okkur t.d. í samanburði við norskan og danskan sjávarútveg? Fáar konur eru í stjórnunarstöðum í íslenskum sjávarútvegi og hvaða áhrif hefur það á ímynd greinarinnar? Hvað skiptir máli til að fá jákvæða ímynd fyrir íslenska sjávarútveg við sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum?

Umsjónarmaður: Ragnhildur Friðriksdóttir, Matís

Bein og óbein áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg

Loftslagsbreytingar koma til með að hafa mikil áhrif á sjávarútveg á heimsvísu og er íslenskur sjávarútvegur þar ekki undanskilinn. Á meðan að langflest Evrópuríki hafa sett fram aðlögunaráætlanir vegna loftslagsbreytinga er þessi vinna skammt á veg komin hér á landi og því lítil sem engin yfirsýn til staðar yfir mögulegt loftslagstengt tjón eða aðlögunarþörf innan íslensks sjávarútvegs næstu ár eða áratugi. Áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg eru ekki bara bundin við lífvænleika og dreifingu nytjastofna eða aðra líffræðilega þætti, heldur bendir ýmislegt til þess að markaðir, efnahagur þjóða og fyrirtækja, sem og samfélagslegir og pólitískir þættir, komi einnig til með að verða fyrir breytingum. Á þessari málstofu verður leitast við að varpa ljósi á möguleg áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg út frá öllum hliðum, hvernig atvinnugreinin mun þurfa að aðlagast breyttu landslagi og hvaða áhættur og tækifæri felast í slíkri vegferð.

Umsjónarmaður:  Tinna Gilbertsdóttir, Iceland Seafood International

Hver er munurinn á íslenskum og norskum makríl?

Íslenskur og norskur makríll er vissulega sama tegundin og heitir sama latneska heitinu, Scomber scombrus. En er þetta samt sem áður sama varan? Erum við Íslendingar að framleiða algjörlega sambærilega afurð við Norðmenn þegar kemur að makríl? Erum við að bera saman epli og epli eða erum við að bera saman epli og appelsínur?
Undanfarin misseri hefur átt sér stað mikil umræða hér á landi um mögulegan verðmun á íslenskum og norskum makríl. Í þessari málstofu verður leitast til við að kanna þennan mögulega verðmun á makríl frá Íslandi og Noregi og svara nokkrum áleitnum spurningum þar að lútandi. Er gæðamunur á þessum makríl? Fæst í raun hærra markaðsverð fyrir þann norska? Er hinn ólíki veiðitími að hafa áhrif á verð? Eru vinnsluaðferðir ólíkar? Eru þessi tvö lönd að sinna sömu mörkuðum varðandi makríl? Hvað með markaðssetninguna? Þessum spurningum og mörgum fleiri verður svarað í málstofunni og er vonast til að þeir sem hana sæki gangi út úr henni með skýr svör er varðar muninn á hinum íslenska makríl annars vegar og hinum norska hins vegar.

Umsjónarmaður: Hólmfríður Sveinsdóttir, Genís

Haftengd nýsköpun – tækifæri til framtíðar

Íslenskur sjávarútvegur er af mörgum talinn vera prímus mótor í íslensku þekkingarsamfélagi. Á síðustu 8 árum hafa 6 íslensk fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi með beinum hætti, hlotið nýsköpunarverðlaun Íslands. Þekking og nýsköpun er afar mikilvæg fyrir sjávarútveginn þar sem aukin verðmætasköpun og framleiðni innan greinarinnar byggist á nýsköpun og traustum þekkingargrunni. Í málstofunni verður fjallað um tækifærin sem leynast í haftengdri nýsköpun, fæðuöryggi, samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, fiskeldi og þekkingarsamfélagið.

Umsjónarmaður: Freydís Vigfúsdóttir, Háskóli Íslands

Þorskur og þjóðarbúið

Í efnahagslegu tilliti er þorskur langmikilvægasta fisktegundin við Ísland. Þorskafurðir hafa staðið undir 30-40% af heildarútflutningstekjum sjávarafurða frá Íslandi á undanförnum árum og skilað þjóðarbúinu mikilvægum tekjum. Þorskur hefur verið mikilvægur lífi í landinu á sögulegum tíma, bæði sem útflutningsvara og til manneldis. Breytingar á þessari auðlind hafa verið bæði af mannavöldum og náttúrlegar. Í þessari málstofu verður farið yfir nýjustu rannsóknir á gildi þorsks og þorskveiða í sögulegu samhengi og stöðu mála í dag. Farið verður yfir nýjar rannsóknir á stjórnun þorskveiða, áhrif umhverfisbreytinga á far og ferðir þorskungviðis og gildi vistkerfis- og félagshagrænna þátta við nýtingu auðlindarinnar.

Umsjónarmaður: Magnús Gíslason, HAp+

Markaðsrannsóknir af hverju og til hvers?

Lykillinn að árangri í samkeppni er að hafa upplýsingar um hvað viðskiptavinir vilja og hvað ekki. Sama hvert verkefnið er þá þurfa stjórnendur á upplýsingum að halda. Þeir þurfa að skilja sinn markað og fylgja honum eftir. Markaðsrannsóknir eru mikilvægt verkfæri til öflunar upplýsinga um vilja neytenda, þær veita einnig upplýsingar um hvernig best er að haga markaðsaðgerðum, hvernig hægt er að uppfylla þarfir núverandi viðskiptavina og leita nýrra viðskiptatækifæra.

Umsjónarmaður: Valmundur Valmundsson Sjómannasamband Íslands

Öryggismál sjómanna og fiskvinnslufólks

Almennt yfirlit og horfur í öryggismálum sjómanna og verkafólks í fiskiðnaði. Hvers vegna færri slys og næstum því slys? Hvað höfum við gert vel og hvað getum við gert betur. Kynnt verður hlutverk Slysavarnaskóla sjómanna, Siglingaráðs og Rannsóknanefndar samgönguslysa í öryggismálum sjómanna og fiskverkafólk. Jafnframt verða kynnar öryggishandbækur og hlutverk þeirra í bættri öryggismenningu á vinnustöðum.

Umsjónarmaður: Sigurður Steinn Einarsson, Síldarvinnslan

Loðnan er brellin

Loðna er einn af mikilvægustu nytjastofnun Íslendinga bæði í efnahagslegum og líffræðilegum skilningi. Loðnan er einnig sá fiskur sem mest óvissa er um. Mest var veitt af loðnu árið 1997 eða 1,3 milljónir tonna en hún hefur verið sérstaklega brellin undanfarin ár en árið 2016 var tekin upp ný aflaregla hér við land. Miklar sveiflur í loðnuveiðum á milli ára hefur mikil áhrif á afkomu fyrirtækja og byggðarlög en farið verður yfir samfélagslegu áhrif loðnubrests. Göngumynstur loðnu hefur breyst mikið og verður fjallað um hugsanlegar ástæður fyrir því og hvers má vænta á næstu árum og áratugum. Fjallað verður um mismunandi viðhorf breyttrar aflareglu í loðnu. Þá verður farið yfir reynslu á aflareglu fyrir loðnu á öðrum hafsvæðum.

Umsjónarmaður: Freydís Vigfúsdóttir Háskóli Íslands

Menntun í sjávarútvegi

Menntun er grunnforsenda framgangs og framþróunar í sjávarútvegi, hvort sem litið er til verkgreina, grunnrannsókna, tækniþróunar eða stjórnunarstöðu. Á Íslandi hefur nám í sjávarútvegi verið lengi í boði s.s. í sjómannaskólanum, iðngreinum, sjávarútvegstengdu námi á framhalds- og háskólastigi. Námi þessu hefur þó verið misvel sinnt, m.a. vegna skort á fjármögnun. Í þessari málstofu verður gefið yfirlit yfir nám sem er í boði á Íslandi og hugmyndir settar fram um framtíðarsýn í samræmi við þarfir atvinnugreinarinnar og stefnu stjórnvalda. Gefið verður sérstakt yfirlit yfir alþjóðlegt nám í sjávarútvegi í boði á Íslandi sem útflutning á þekkingu sem myndar tengslanet, eykur eftirspurn á vöru og þjónustu og er jafnframt framlag Íslands til alþjóðasamfélagsins.

Umsjónarmaður: Stefán Þór Eyteinsson, Matís

 

Nýting dýrasvifs og miðsjávartegunda

Í málstofunni verður fjallað um mögulega nýtingu dýrasvifs og miðsjávartegunda. Stöðug fjölgun jarðarbúa og aukin eftirspurn sjávarafurða hefur valdið auknum þrýstingi á nýtingu fiskstofna. Vegna þess er í auknum mæli leitað af öðrum tegundum úr hafinu sem hægt er að nýta með sjálfbærum hætti til framleiðslu á sjávarafurðum. Farið verður yfir mikilvægi dýrasvifs í fæðuvef hér við land, tilraunaveiðar síðustu ára á bæði dýrasvifi og miðsjávartegundum og hvaða framtíðartækifæri eru til staðar við veiðar, vinnslu og markaðssetningu á þessu sviði.

Umsjónarmaður: Runólfur Geir Benediktsson, Íslandsbanki

Þjóðhagspá og heimsmarkmiðin

Góðu heilli voru fjölmargar stoðir íslenska hagkerfisins býsna sterkar í byrjun þessa árs en hefur nú reynt mikið á þær á síðastliðnum mánuðum. Þessar stoðir eru mismunandi að eðli og uppbyggingu og áhugavert er að skoða hvernig þær eru að reynast okkur í gjörbreyttu umhverfi. Árið 2020 verður afar erfitt og spáir Greining Íslandsbanka miklum samdrætti á árinu. Hversu hratt faraldurinn gengur niður er lykilforsenda fyrir því hversu hraður efnahagsbatinn verður. Farið verður yfir helstu atriði þjóðhagspár bankans og horft verður sérstaklega til sjávarútvegs í þeirri yfirferð. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með henni er einnig leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Heimsmarkmiðin virka sem ein heild og styður Íslandsbanki við þau öll. Hins vegar til að skerpa á áherslum sínum hefur bankinn valið að styðja við fjögur þeirra. Við munum fara yfir þau markmið sem bankinn hefur að leiðarljósi og skoða hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur nálgast þessi heimsmarkmið.

Umsjónarmaður: Karl Hjálmarsson, Iceland Seafood International

Hvað skiptir máli í sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum og hvaða atrið þurfa að vera til staðar til tryggja árangurinn?

Mikið hefur verið rætt um markaðsmál og sameiginlega markaðssetningu á sjávarafurðum hin síðari ár. Hér á árum áður báru stór sölusamtök svo sem SÍF, SH og Íslenskar sjávarafurðir uppi sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum og ber flestum í greininni saman um að það sé meginástæða fyrir því góða orðspori sem íslenskar sjávarafurðir hafa á sér. Hin síðari ár hefur þetta verið ómarkvissara og fyrirtækin unnið meira hvert í sínu horni í sölu og markaðssetningu og einungis á þeim afurðum sem hvert og eitt þeirra veiða og vinna. Hugmyndin er að fara aðeins í gegnum söguna og snerta á því sem hefur reynst vel og staðið og annað sem ekki hefur reynst jafnvel. Taka stöðuna á þessum málum í dag og sjá hvar við stöndum í samanburði við kröfur markaða og samkeppnina. Tilgangurinn er að sjá út og undirstrika þær aðgerðir eða atrið sem mestu skipta þegar kemur að sölu og markaðssetningu á sjávarafurðum frá Íslandi auk þess að velta því upp hvort við þurfum ekki heilsteyptari stefnu þegar kemur að sölu og markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum heldur en nú er?

Umsjónarmaður: Valdimar Ingi Gunnarsson, Sjávarútvegs-ráðstefnan

Kynningar á vörum og þjónustu sem fyrirhugað er að markaðssetja eða er nýlega byrjað að selja (kostaðar kynningar)

Markmiðið er að gefa þjónustuaðilum sjávarútvegs möguleika á að kynna vörur og þjónustu sem fyrirhugað er að markaðssetja eða er nýlega byrjað að selja. Hér er einnig tækifæri að kynna niðurstöður rannsókna óháðs aðila sem hluta af markaðssetningu á vöru eða þjónustu fyrirtækisins. Hér er um kostaðar kynningar að ræða og ekki er verið að kynna fyrirtækið eða almennar vörur eða þjónustu sem það býður upp á. Vonast er til að kynning á nýjungum í sjávarútvegi auðveldi ákvörðunartöku í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.