Loka

Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 202

Svifaldan verðlaunagripurinn fyrir Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2022 var nú veitt í þriðja sinn en markmið verðlaunanna er að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða, stuðla að nýbreytni og vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Svifaldan er gefin af TM, en jafnframt voru veittar viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu verkefnunum að mati dómnefndar.

Sex manna dómnefnd skipuð aðilum úr sjávarútvegsfyrirtækjum, rannsóknastofnunum, tæknifyrirtækjum og þjónustuaðilum við sjávarútveginn lagði mat á tillögur til Hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2022.

Verðlaunin voru veitt við sérstaka verðlaunaafhendingu á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu í dag.

Sidewind hlaut Svifölduna, Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2022 fyrir að þróa vindtúrbínur sem ætlað er að virkja vindorku og draga úr olíunotkun í gámaflutningaiðnaðinum. Sidewind vinnur að þróun umhverfisvænna lausna fyrir flutningaskip. Fyrirtækið stefnir að framleiðslu vindtúrbína sem komið er fyrir í opnum gámum. Vindmyllugámarnir geta nýtt þann hliðarvind, sem annars færi til spillis á hafi úti, til rafmagnsframleiðslu. Þessi aðferð getur minnkað mengun frá flutningaskipum töluvert, en Sidewind telur að aðferðin geti framleitt 5-20% af þeirri orku sem skipið þarf hverju sinni. Tíu metra löng frumgerð í 40’’ gám hefur nú þegar verið gerð og prófanir á henni fara að hefjast. Stofnendur og eigendur Sidewind eru Óskar Svavarsson og María Kristín Þrastardóttir.

Kerecis hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir þróun og framleiðslu á lækningavörum úr íslensku fiskroði. Kerecis er leiðandi líftæknifyrirtæki og frumkvöðull í notkun á roði og fitusýrum á alþjóðlegum og sístækkandi markaði fyrir lækningavörur. Lækningavörur Kerecis úr íslensku þorskroði hafa bætt líf og líðan tuga þúsunda sjúklinga um allan heim og er hliðarafurð íslensk sjávarútvegs. Með því að nota roðið tekur fyrirtækið þátt í að bæta nýtingu auðlindarinnar og auka verðmætasköpun.Fyrirtækið hóf rekstur árið 2013 og er nú að komast upp á næsta stig og er það fyrirtæki sem vex hraðast í heiminum á sviði meðferðar á vefjaskaða. Ræturnar liggja í vísindum og sjálfbærni þar sem umhverfissjónarmið eru stór þáttur. Kerecis er gott dæmi um sprotafyrirtæki sem hefur með miklum dugnaði skapað sér sess á alþjóðamarkaði og er því hvatning og fyrirmynd fyrir ung sprotafyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Brim hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir starf sitt í innleiðingu á sjálfbærniviðmiðum í rekstri og mótun nýrra leiða til að fullvinna afurðir og hliðarstrauma. Þó svo að Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM séu fyrst og fremst hugsuð til að hvetja ung fyrirtæki og sjálfstætt starfandi einstaklinga til dáða, þá vildi dómnefndin að þessu sinni vekja sérstaka athygli á þeirri vegferð sem Brim hf. hefur verið á í tengslum við umhverfismál. Brim hefur verið leiðandi í innleiðingu á sjálfbærniviðmiðum inn í sinn rekstur og er sífellt að leita nýrra leiða til að fullvinna afurðir og hliðarstrauma. Orkunotkun og orkuskipti hafa verið félaginu hugleikin, og þá hefur fyrirtækið hannað sitt eigið umhverfiskerfi sem kortleggur heildar kolefnisspor félagsins. Brim hefur undanfarin ár gefið út samfélagsskýrslu sem greinir frá hvaða áhrif fyrirtækið hefur á samfélagið og umhverfið. Brim var fyrsta fyrirtækið hér á landi til að gefa út „græn og blá skuldabréf“ og að líkindum fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið í heiminum. Þessar áherslur hjá Brim í umhverfismálum geta orðið öðrum fyrirtækjum, bæði smærri og stærri, góð hvatning.

Óskar Svavarsson og María Kristín Þrastardóttir handahafari Sviföldunnar