Loka

Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2021

Svifaldan verðlaunagripurinn fyrir Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2021 var nú veitt í tíuunda sinn, en markmið verðlaunanna er að hvetja ung fyrirtæki og frumkvöðla til dáða, stuðla að nýbreytni og vekja athygli almennings á gildi nýsköpunar og þróunar í sjávarútvegi. Svifaldan er gefin af TM, en jafnframt voru veittar viðurkenningar til þeirra sem standa að þremur bestu verkefnunum að mati dómnefndar.

Sex manna dómnefnd skipuð aðilum úr sjávarútvegsfyrirtækjum, rannsóknastofnunum, tæknifyrirtækjum og þjónustuaðilum við sjávarútveginn lagði mat á tillögur til Hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2021.

Upphaflega stóð til að afhenda Hvatningarverðlaunin á Sjávarútvegráðstefnunni sem átti að halda í síðasta mánuði en var frestað til næsta árs vegna Covid. Það var því farin sú leið að afhenda Hvatningarverðlaunin að þessu sinn í höfuðstöðvum TM í dag.

Marea ehf. hlaut Svifölduna, Hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2021 fyrir að þróa lífplastefni úr íslenskum þara sem ber nafnið Þaraplast. Allir þekkja þann vanda sem við er að etja í tengslum við notkun á plasti og plastfilmum, en plastmengun er stórt vandamál sem hefur áhrif jafnt á lífríki sjávar og heilsufar okkar mannfólksins. Marea er að vinna í þróun á fjölbreyttum gerðum af Þaraplastfilmum sínum sem eru sveigjanlegar og hafa mismunandi eiginleika.Marea er komið lengst á veg með þróun á filmu sem hefur það að markmiði að koma í staðin fyrir millilagningarplöst í sjávarútvegi. Þaraplastið getur því verið umhverfisvæn lausn á plastnotkun í sjávarútvegi sem mun stuðla að bættri ímynd og virðisaukningu. Marea ehf. samanstendur af Julie Encausse, Eddu Björk Bolladóttur og Eydísi Sigurðardóttur Schiöth, en um þessar mundir er rannsóknar- og vöruþróunarteymið að stækka.

LAX-INN fræðslumiðstöð í fiskeldi hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM. Fræðslumiðstöðin er staðsett á Grandagarði í Reykjavík, þar sem hægt er að kynna sér starfsemi fiskeldis með beintengingu myndavéla bæði í land-og sjóeldi á landsbyggðinni ásamt ýmsu öðru fræðsluefni um þessa atvinnugrein. Lögð er áhersla á fræðslu um hvernig fiskeldi við íslenskar aðstæður fer fram, frá hrogni til fisks og alla leið á disk neytenda.Veg og vanda að stofnun fræðslumiðstöðvarinnar á Sigurður Pétursson.

Dr. Ásta Dís Óladóttir hlaut viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir ötult starf við menntun, fræðslu og frumkvöðlastarfsemi á sviði sjávarútvegstengdra málefna. Ásta Dís er dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hefur á skömmum tíma byggt upp öflugt námskeið sem er vinsælt meðal nemenda og vekur hjá þeim áhuga á sjávarútvegi, með áherslu á nýsköpun og nýjar leiðir til virðisaukningar. Ásta Dís kemur að stofnun Sjávarlíftæknivettvangs Íslands í Vestmannaeyjum. Hún er einnig öflugur rannsakandi á sviðinu og áhugi Ástu Dísar á jafnréttismálum hefur vakið athygli.

 

 

Julie Encausse, Marea ehf. handhafi Sviföldunnar

Frá vinstri; Sigurður Pétursson, Ásta Dís Óladóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir,  Julie Encausse og Þóroddur Sigfússon

Þóroddur Sigfússon hjá TM afhendir Julie Encausse Svifölduna