Framúrstefnuhugmynd 2016

Ofurkæling á fiski
Gunnar Þórðarson, Matís og Albert Högnason, 3X Technology hlutu fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016. Hugmyndin er ofurkæling á botnfiski niður í -0,7 °C og -1,5 °C í laxi. Með ofurkælingu er átt við að færa kæliorku inn í fiskvöðvann strax eftir veiðar/slátrun, þar sem innan við 20% af vatnsinnihaldi er fryst. Engar skemmdir verða á frumum vegna ískristallamyndunar og geymsluþol afurðar lengist í samanburði við hefðbundnar leiðir við kælingu á fiski. Mikil tækifæri geta legið í flutningi á ofurkældum ferskum fiski þar sem mikið sparast við að losna við ís í flutningskeðju, sérstaklega með flugi. Þó svo að ofurkæling sé í sjálfu sér ekki ný af nálinni, þá er tæknin og búnaðurinn sem þróaður hefur verið í kringum þessa „framúrstefnuhugmynd“ ný nálgun sem hefur þegar orðið grundvöllur að nýrri hugsun við veiðar og vinnslu innan lands sem utan.

Hugmyndin er komin í framleiðslu og upplýsingar er að finna á vefnum Skaginn 3X